Höttur frá Egilsstöðum, sem leikur í 2. deild, sigraði topplið 1. deildar, Selfoss, í vítaspyrnukeppni í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, VISA-bikarsins, á Selfossi í dag. Staðan var 2:2 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu í baráttuleik þar sem tvö rauð spjöld fóru á loft.
Öruggur sigur virtist í uppsiglingu hjá Selfyssingum sem komust snemma í 2:0. Agnar Bragi Magnússon og Ingþór Jóhann Guðmundsson skoruðu. En á 40. mínútu var dæmd vítaspyrna á heimamenn og Jóhann Ólafur Sigurðsson markvörður þeirra var um leið rekinn af velli.
Sævar Þór Gíslason, markahrókur Selfyssinga fór í markið en réð ekki við vítaspyrnu Stefáns Þórs Eyjólfssonar og staðan var 2:1 í hálfleik.
Þegar 15 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik jafnaði Víglundur Páll Einarsson fyrir Hattarmenn, 2:2. Sævar fór þá aftur í framlínuna hjá Selfyssingum og varnarmaðurinn Sigurður Eyberg Guðlaugsson leysti hann af í markinu. Ekki var skorað meira í venjulegum leiktíma.
Þar með þurfti að grípa til framlengingar en í upphafi seinni hálfleiks hennar fór rauða spjaldið aftur á loft. Anton Ástvaldsson úr Hetti var þá rekinn af velli og því jafnt í liðunum á ný. Ekki var skorað meira, staðan 2:2 eftir framlenginguna.
Oliver Bjarki Ingvarsson markvörður Hattar var síðan hetja Egilsstaðabúa í vítaspyrnukeppninni. Hann varði tvívegis frá Selfyssingum, sem að auki skutu einu sinni yfir mark Hattar á meðan Hattarmenn skoruðu úr öllum sínum spyrnum og eru komnir í 16-liða úrslit keppninnar.