Tveir leikir fóru fram í A-riðli í Álfubikarnum í knattspyrnu í kvöld. Evrópumeistarar Spánverja unnu sinn þriðja sigur í jafnmörgum leikjum í keppninni þegar þeir báru sigurorð af Suður-Afríkumönnum, 2:0, og markalaust jafntefli varð niðurstaðan í leik Íraka og Ný-Sjálendinga.
David Villa og Fernando Llorente gerðu mörk Spánverja í seinni hálfleik en rétt áður en Villa skoraði náði hann ekki að nýta vítaspyrnu. Evrópumeistararnir hafa enn ekki fengið á sig mark en hafa skorað 8. Spánverjar eru komnir í undanúrslit ásamt Suður-Afríkumönnum.
Spánverjar settu nýtt met með sigrinum í kvöld en þeir hafa nú unnið 15 leiki í röð og eru gjörsamlega ósigrandi.