Fjórir leikir fóru fram í kvöld í áttundu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Leiknir vann Þór á Akureyri 1:0, ÍA lagði ÍR í Breiðholtinu 2:0, Haukar unnu 3:1 útisigur á Víkingi R. og loks vann HK Aftureldingu 1:0 á Kópavogsvelli. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Áttundu umferð lýkur á morgun með leik Selfoss og Fjarðabyggðar annars vegar og leik Víkings Ó. og KA hins vegar.
19:15 Þór - Leiknir R. 0:1 (leik lokið)
Ólafur Hrannar Kristjánsson skoraði fyrsta mark kvöldsins þegar hann kom Leikni yfir gegn Þór á 44. mínútu en það reyndist eina mark leiksins.
20:00 ÍR - ÍA 0:2 (leik lokið)
Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleik í Breiðholtinu. Andri Júlíusson kom ÍA yfir á 52. mínútu með skoti af um 20 metra færi. Andri bætti svo við öðru marki á 67. mínútu með góðu skoti. Erlingur Jack Guðmundsson fékk gott tækifæri til að minnka muninn fyrir ÍR-inga á 75. mínútu en skaut í stöng úr vítaspyrnu.
20:00 Víkingur R. - Haukar 1:3 (leik lokið)
Leik Víkings og Hauka seinkaði um tíu mínútur. Víkingurinn Egill Atlason komst næst því að skora í fyrri hálfleik en hann lét Amir Mehica verja frá sér af markteig eftir góðan undirbúning Ástralans Lewisar Ehrlich. Garðar Ingvar Geirsson kom Haukum yfir á 48. mínútu eftir að hafa komið inná sem varamaður í fyrri hálfleiknum. Þorvaldur Sveinn Sveinsson jafnaði metin fyrir heimamenn á 72. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu Sigurðar Egils Lárussonar. Hilmar Geir Eiðsson kom Haukum aftur yfir á 80. mínútu með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá varamanninum bróður sínum Enok Eiðssyni. Guðjón Pétur Lýðsson jók muninn í 3:1 á 83. mínútu.
20:00 HK - Afturelding 1:0 (leik lokið)
Engin mörk voru skoruð í fyrri hálfleik á Kópavogsvelli. Þórður Birgisson kom heimamönnum yfir á 61. mínútu þegar hann „klippti“ boltann í netið eftir hornspyrnu.