Margrét of góð til að vera á bekknum

Margrét Lára Viðarsdóttir kom fagmannlega fram, að sögn formanns Linköping.
Margrét Lára Viðarsdóttir kom fagmannlega fram, að sögn formanns Linköping. mbl.is/Golli

Anders Mäki, formaður sænska knattspyrnufélagsins Linköping, segir að það hafi verið best fyrir alla aðila að Margrét Lára Viðarsdóttir færi frá félaginu til Kristianstad. Hún hafi verið of góður leikmaður til að sitja á varamannabekknum en vel hafi verið staðið að brottför hennar frá félaginu á allan hátt.

Mäki segir á vef Linköping að þetta hafi verið besta lausnin fyrir Margréti, Linköping og íslenska landsliðið sem sé á leiðinni á EM í Finnlandi.

„Hún er geysilega góð knattspyrnukona en hefur ekki náð að blómstra í Linköping. Vissulega hefur hún átt þar í erfiðri baráttu við landsliðskonur í öllum þeim stöðum sem hún hefur spilað. Það er mikilvægt fyrir hana og fyrir Ísland að hún komi á EM í góðri leikæfingu, og auk þess er ekki sniðugt að við hjá Linköping séum með svona hæfileikaríkan leikmann á varamannabekknum," sagði Mäki.

Samningi Margrétar við Linköping var slitið og hún er strax laus frá félaginu.

„Við höfum rætt um mismunandi lausnir á þessu um hríð og hún er komin með nýtt lið. Ég vil taka fram að hún hefur komið mjög fagmannlega fram í öllu þessu máli og þetta hefur allt snúist um þau takmörkuðu tækifæri sem hún hefur fengið með liðinu. Góður framherji og mikill markaskorari verður að spila til að skora mörk," sagði Anders Mäki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert