Spænskir og franskir fjölmiðlar fullyrða að Real Madrid hafi náð samkomulagi við franska félagið Lyon um kaup á Karim Benzema, hinum öfluga franska landsliðsmanni sem hefur verið sterklega orðaður við Manchester United að undanförnu.
Karim Djaziri, umboðsmaður Benzema, sagði við franska útvarpsstöð að samningar hefðu tekist á milli félaganna og aðeins væri eftir að ræða kaup og kjör og senda piltinn í læknisskoðun til að allt væri klappað og klárt.
Þar með bendir allt til þess að Real Madrid sé að kaupa sína fjórðu stórstjörnu á þessu sumri en talið er að kaupverðið sé í kringum 35 milljón evrur.
Benzema er 21 árs gamall sóknarmaður og hefur verið í röðum Lyon frá 8 ára aldri. Hann hefur gert 43 mörk fyrir liðið í 112 leikjum í frönsku 1. deildinni og orðið franskur meistari með því í fjögur skipti. Benzema hefur leikið 24 landsleiki fyrir Frakkland og skorað í þeim 6 mörk.