Þjálfari TNS: Nýttum ekki yfirburðina gegn Fram

Halldór Hermann Jónsson í baráttu við Steve Evans sem skoraði …
Halldór Hermann Jónsson í baráttu við Steve Evans sem skoraði fyrir TNS í báðum leikjunum gegn Fram. mbl.is/Golli

Þjálfari velska knattspyrnuliðsins The New Saints segir að sínir menn hafi ekki nýtt yfirburði sína í tveimur leikjum gegn íslenska liðinu Fram og hafi fallið úr keppni í Evrópudeild UEFA vegna þess að þeir séu ekki komnir í leikæfingu á meðan Framarar séu á miðju sínu keppnistímabili.

„Fólk áttar sig ekki á því hve miklu það munar að vera í leikæfingu. Við stjórnuðum leiknum en erum ekki ennþá komnir í rétta formið. Þeir eru á miðju sínu tímabili, og allt gott um það að segja, og þeir lágu í vörn og byggðu á skyndisóknum. En þó við réðum ferðinni, bæði í útileiknum og heimaleiknum vorum við ekki nógu beittir og það verður alltaf erfitt fyrir okkur að spila Evrópuleiki á þessum árstíma," sagði Andy Cale, þjálfari The New Saints, á heimasíðu félagsins í dag.

Fram vann seinni leikinn í Oswestry í gærkvöld, 2:1, rétt eins og fyrri leikinn á Laugardalsvellinum í síðustu viku, og mætir nú Sigma Olomouc frá Tékklandi í 2. umferð.

„Við lékum frábærlega en Fram átti tvær sóknir í leiknum og skoraði tvö mörk - fékk ódýra vítaspyrnu og ódýrt mark. Við stjórnuðum leiknum, vorum með boltann mest allan tímann, en tvær skyndisóknir dugðu til að leggja okkur. Markmaðurinn þeirra var maður leiksins, og því miður var heppnin ekki á okkar bandi, en ef við spilum svona allt tímabilið verð ég hæstánægður," sagði Andy Cale.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert