HK komst í kvöld upp í annað til þriðja sæti 1. deildar karla í knattspyrnu þegar liðið lagði KA, 3:1, á Akureyrarvelli. Kópavogsbúar voru marki undir hálfleik en hresstust verulega í síðari hálfleik. HK er þar með komið með 20 stig eins og Haukar en liðin hafa einnig sömu markatölu, 22:15. Fjarðabyggð hefur 19 stig og á leik til góða á bæði liðin.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
90. Flautað hefur verið til leiksloka á Akureyrarvelli. Gestirnir fagna en KA menn verða að bíta í það súra epli að tapa öðrum leik sínum í röð í deildinni.
76. Rúnar Már Sigurjónsson lék á varnarmenn KA og renndi knettinum framhjá markverði KA, 1:3.
60. Gestirnir úr Kópavogi eru komnir yfir og það með gullfallegu marki. Almir Cosic þrumaði knettinum af 25 m færi upp í markvinkilinn í netið, 1:2.
47. Síðari hálfleikur byrjar fjörlega. HK jafnar metin. Ásgrímur Albertsson skallar boltann í fjærhornið eftir hornspyrnu Rúnars Más Sigurjónssonar, 1:1.
45. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Nokkuð hresstist yfir leiknum eftir markið. Aðallega voru það leikmenn KA sem hertu róðurinn tóku að sækja af meiri krafti en áður. Annars var fyrri hálfleikur frekar rólegur.
37. KA náði forystunni þegar þjálfarinn Dean Martin sendi boltann fyrir mark HK frá hægri og David Disztl skoraði með skalla, 1:0.
30. Enn láta færin á sér standa á Akureyrarvelli. KA hefur verið heldur meira með boltann.
15. Upphafsmínútur leiksins voru tíðindalitlar, mikil barátta en fátt um færi.