Þórsarar sóttu þrjú stig til Hafnarfjarðar

Barist um boltann í leiknum á Ásvöllum í kvöld.
Barist um boltann í leiknum á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Eggert

Haukar og Þór Akureyri áttust við á gervigrasinu í Hafnarfirði í 1. deild karla í knattspyrnu. Hófst leikurinn klukkan 18:30. Úrslitin voru óvænt því gestirnir að norðan sigruðu 2:1 eftir að hafa verið 1:0 yfir í hálfleik. Leikurinn var liður í 11. umferð og eru Haukar með 20 stig en Þórsarar með 12 stig. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Einar Sigþórsson og Ármann Pétur Ævarsson skoruðu mörk Þórs en Hilmar Geir Eiðsson minnkaði muninn fyrir Hauka.

90. mín: Leiknum er lokið með óvæntum sigri Þórsara.

82.mín: Haukum tókst að minnka muninn með laglegu marki. Guðjón Pétur Lýðsson átti frábæra sendingu á Hilmar Geir Eiðsson sem komst inn í vítateiginn hægra megin með því að ná strax valdi á boltanum. Renndi honum í kjölfarið í fjærhornið af yfirvegun. Nú ætti að lifna eitthvað yfir þessum bragðdaufa leik.

70. mín: Þórsarar eru komnir í 2:0 og heldur betur óvæntir hlutir að gerast í Hafnarfirði. Ármann Pétur Ævarsson skoraði á 70. mínútu eftir skyndisókn. Einar Sigþórsson komst upp að endamörkum hægra megin og gaf fyrir markið þar sem Ármann var á fjærstönginni og skallaði knöttinn í stöng og inn. 

65. mín: Þórsarar eru enn 1:0 yfir og eru í ágætum málum eins og er. Haukum hefur ekki tekist að skapa sér almennileg marktækifæri í síðari hálfleik þrátt fyrir að vera meira með boltann. Akureyringar hafa hins vegar átt hættulegar skyndisóknir í siðari hálfleik. Amir Mehica varði vel frá Hreini Hringssyni á 62. mínútu úr góðu færi.

50. mín: Atli Jens Albertsson miðvörður Þórs varð fyrir meiðslum og var borinn af leikvelli. Í hans stað kom Matthías Friðriksson inn á. 

45. mín: Haukar léku með sterkan vind í bakið í fyrri hálfleik og sóttu linnulítið eftir að Þórsarar komust yfir. Vörn Þórsara hefur opnast nokkrum sinnum illa án þess að Haukum hafi tekist að gera sér mat úr því.  Forvitnilegt verður að sjá hvernig leikurinn þróast í síðari hálfleikur þegar heimamenn þurfa að leika gegn vindinum. 

12. mín: Þórsarar komust yfir eftir skyndisókn. Sveinn Elías Jónsson lagði boltinn fyrir Einar Sigþórsson sem afgreiddi boltann örugglega í markið úr vítateignum.  Staðan 1:0 fyrir gestina að norðan eftir tíðindalitlar upphafasmínútur. 

1. mín: Haukar leika án fyrirliða síns Þórhalls Dan Jóhannssonar sem meiddist gegn Selfossi. Hinn miðvörðurinn Goran Lukic tekur við fyrirliðabandinu. Andri Janusarson er einnig meiddur eins og í undanförnum leikjum.

Byrjunarlið Hauka: 

Amir Mehica - Sindri Örn Steinarsson, Pétur Sæmundsson, Goran Lukic, Jónas Bjarnason - Úlfar Hrafn Pálsson, Guðjón Pétur Lýðsson , Ásgeir Þór Ingólfsson, Hilmar Geir Eiðsson - Garðar Ingvar Geirsson, Hilmar Emilsson.

Byrjunarlið Þórs:

Björn Hákon Sveinsson - Gísli Páll Helgason, Atli Jens Albertsson , Þorsteinn Ingason, Víkingur Pálsson - Einar Sigþórsson, Aleksandar Linta, Ármann Pétur Ævarsson, Sigurður Kristjánsson, Sveinn Elías Jónsson - Hreinn Hringsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka