Gísli Gíslason, formaður meistaraflokksráðs knattspyrnudeildar ÍA, sagði í samtali við mbl.is í dag að ekki stæði til að leysa þá Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni undan skyldum sínum hjá liðinu á stjórnarfundi í dag, en liðið situr í þriðja neðsta sæti í 1. deild, eftir tap á heimavelli gegn Selfyssingum í gær.
„Nei, það verða engar ákvarðanir teknar um þjálfaramál á þessum fundi. Við hittumst alltaf á miðvikudögum og auðvitað verður farið yfir stöðu liðsins, en það er ekki verið að leita að nýjum þjálfara. Hvað leikmannahópinn varðar, þá var tekin sú ákvörðun í upphafi tímabils að við ætluðum ekki að ná í neinn mannskap, heldur byggja á þeim strákum sem fyrir eru. Við vitum að þeir eru ungir og það þarf þolinmæði, en það hefur ekkert verið skoðað sérstaklega að styrkja leikmannahópinn,“ sagði Gísli.
Miklar vangaveltur hafa verið á spjallsíðum á Netinu um framtíð ÍA eftir tapið í gær, og hafa þeir Willum Þór Þórsson, fyrrum þjálfari Vals og Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, báðir verið nefndir sem arftakar Arnars og Bjarka.
ÍA hefur unnið þrjá leiki af 11 það sem af er sumri, gert þrjú jafntefli og tapað fimm leikjum. Liðið er með 12 stig í 10. sæti 1. deildar.