Mark Ármanns Péturs Ævarssonar á 89. mínútu tryggði Þór 3:2 sigur á KA í Akureyrarslagnum í 13. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
9. mín. Matthías Örn Friðriksson kom Þórsurum í 1:0 þegar hann tók boltann á lofti í vítateignum og skoraði með góðu skoti.
24. mín. Þórsarar juku forskot sitt í 2:0 þegar Einar Sigþórsson skaut boltanum af vítateigslínunni nánast í stöng og inn.
26. mín. David Disztl hefur verið iðinn við kolann í sumar og hann minnkaði muninn fyrir KA þegar hann fékk sendingu inn fyrir vörn Þórsara, lék boltanum aðeins til baka og skaut honum svo í markið.
Hálfleikur. Staðan í hálfleik var 2:1 Þórsurum í vil.
71. Þjálfarinn Dean Martin jafnaði metin fyrir KA í 2:2. Hann tók hornspyrnu, fékk svo boltann aftur og kom sér í skotstöðu og skaut boltanum í nærhornið.
89. Ármann Pétur Ævarsson tryggði Þórsurum dramatískan sigur með marki undir lok leiksins eftir fyrirgjöf frá Hreini Hringssyni.