„Það er satt best að segja illverandi útivið að degi til hérna í Larissa en við vonum að það verði aðeins svalara með kvöldinu,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari KR-inga, sem mæta í kvöld liði Larissa í Grikklandi. Þar freista Vesturbæingar þess að verja 2:0 forskotið frækilega sem þeir náðu óvænt í fyrri viðureign liðanna á KR-vellinum síðasta fimmtudag.
Grikkir segja sjálfir að Larissa sé einn „versti“ staður landsins að sumarlagi vegna kæfandi hita og Logi sagði að það gæti vel staðist. Lið hans var á leið á æfingu með kvöldinu, á sama tíma og leikurinn fer fram, en hann hefst klukkan 20 að staðartíma í kvöld, eða 17 að íslenskum tíma.
Logi sagði að leikmannahópur KR væri tilbúinn að öðru leyti en því að vafi léki á hvort Atli Jóhannsson og Skúli Jón Friðgeirsson yrðu með. „Þeir eru tæpir vegna meiðsla, spiluðu ekki síðasta deildaleik með það fyrir augum að þeir ættu von í að vera með hér í Grikklandi. Það verður að ráðast. Að öðru leyti eru allir virkilega vel stemmdir og tilbúnir í þessa baráttu. Við vitum vel að það er alltaf mikill munur á grískum liðum þegar þau spila erlendis eða heima, og erum viðbúnir miklum látum á vellinum. En ég hef sagt við strákana að þetta séu sömu mennirnir og þeir sigruðu á KR-vellinum. Það verður farið í leikinn af fítonskrafti og jákvæðni, allt lagt í sölurnar, og svo vonum við að það dugi okkur til að komast áfram í keppninni,“ sagði Logi.