Þurfum að eiga algjöran toppleik

Auðun Helgason er laus úr þriggja leikja banni í Evrópukeppni …
Auðun Helgason er laus úr þriggja leikja banni í Evrópukeppni og er tilbúinn í slaginn í kvöld. mbl.is/Golli

„Það er ekkert launungarmál að menn eru búnir að bíða eftir þessum leik í viku. Það er mikil tilhlökkun í gangi eftir frábæra frammistöðu í fyrri leiknum en við gerum okkur grein fyrir því að það er bara hálfleikur í þessu einvígi,“ sagði Auðun Helgason fyrirliði Fram sem mætir í kvöld Sigma Olomouc frá Tékklandi í seinni leik liðanna í 2. umferð Evrópudeildar UEFA á Laugardalsvelli. Fyrri leikurinn fór 1:1 og staða Fram því góð.

„Fyrir fram reiknaði ég með að möguleikarnir á að komast áfram væru svona 30 á móti 70, þeim í vil, og það hefur í rauninni ekki breyst þó staðan sé mjög fín. Við þurfum að eiga algjöran toppleik allir saman, frá aftasta til fremsta manns. Þetta er svakalega vel spilandi lið en það er komið gott sjálfstraust í okkar hóp, menn eru í góðu leikformi og mikil leikgleði í gangi eftir gott ról undanfarið,“ sagði Auðun sem býst við að framhald verði á fyrri leiknum þar sem Framarar vörðust aftarlega.

„Það er náttúrulega lykilatriði að halda markinu hreinu og svo er bara að nýta færin þegar þau gefast því við munum fá þau rétt eins og úti. Sóknarleikurinn er þeirra sterka hlið því varnarlínan hjá þeim er ekki það góð. Það munu því opnast möguleikar fyrir okkur til að skora. Þeir eru mjög öflugir í að halda boltanum en við verðum að þora að gera það líka því eftir því sem líður á leikinn þá styrkjum við okkar stöðu,“ sagði fyrirliðinn sem var í banni í fyrri leiknum. Jón Guðni Fjóluson leysti hann af hólmi og skoraði markið dýrmæta, og Auðun segir erfitt verk bíða Þorvaldar Örlygssonar að velja byrjunarlið.

„Það eru bara allir átján leikmennirnir á tánum tilbúnir að spila og ég býst við að liðið verði mjög svipað og í fyrri leiknum því hann gekk frábærlega. Ég vonast að sjálfsögðu eftir að fá að taka þátt í þessu ævintýri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert