Ólafur Örn Bjarnason og Birkir Bjarnason komu liðum sínum á bragðið með mörkum í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Ólafur skoraði fyrsta markið í 4:2 sigri Brann á Bodö/Glimt og Birkir skoraði fyrsta markið í 5:2 sigri Viking á Lyn.
Kristján Örn Sigurðsson, Ólafur Örn og Birkir Már Sævarsson léku allan leikinn fyrir Brann og Gylfi Einarsson kom inná sem varamaður á 40. mínútu en Ármann Smári Björnsson var á varamannabekknum.
Birkir Bjarnason lék fyrstu 85 mínúturnar í liði Viking í sigrinum á Lyn en Indriði Sigurðsson var í leikbanni og gat því ekki spilað með Lyn. Markvörðurinn ungi Arnar Darri Pétursson var á varamannabekk Lyn.
Þá lék Árni Gautur Arason vel í marki Odd Grenland sem vann 3:0 útisigur á Vålerenga.