Ýmislegt hægt ef viljinn er fyrir hendi

Logi Ólafsson á æfingu KR í gær.
Logi Ólafsson á æfingu KR í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Kr-ingar halda uppi merkjum Íslands í Evrópukeppninni í knattspyrnu þetta árið og í kvöld etja þeir kappi við svissneska liðið Basel í 3. umferð Evrópudeildar UEFA. Leikurinn fer fram á KR-vellinum og hefst klukkan 19.15. KR náði þeim frábæra árangri að slá út gríska liðið Larissa í 2. umferðinni og lagði grunninn að því með því að vinna heimaleikinn, 2:0.

„Það er mikil tilhlökkun í okkar herbúðum. Ég held að við höfum komist að því í leikjunum á móti Larissa að það er ýmislegt hægt ef viljinn er fyrir hendi og ef menn halda góðu skipulagi. Við gerum okkur það hins vegar alveg ljóst að við verðum teknir ögn alvarlegar núna en í leikjunum á móti Grikkjunum. Forráðamenn Basel mættu og sáu okkur í leiknum við Fjölni hér heima og voru með menn úti á leiknum gegn Grikklandi. Þeir vita því að hverju þeir ganga að nokkru leyti,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari bikarmeistara KR-inga, við Morgunblaðið eftir æfingu liðsins í gær.

Lítur þú á lið Basel sem öflugri andstæðing en Larissa?

,,Já, ég held að það sé alveg ljóst að Basel er með betra lið en Larissa. Saga Basel í Evrópukeppninni er með þeim hætti að það er ekki hægt að líta öðruvísi á en að þetta lið sé sterkari mótherji. Basel hefur verið þátttakandi í UEFA-keppninni eða Meistaradeildinni nær árlega og lið þeirra því orðið mjög sjóað á þessum vettvangi,“ sagði Logi.

Þjálfari Basel er Þjóðverjinn Thorsten Fink, fyrrum leikmaður Bayern München, en hann tók við liðinu í síðasta mánuði eftir að Christian Gross var sagt upp störfum hjá félaginu.

,,Samkvæmt þeim fréttum sem við höfum réð Basel Thorsten Fink og fól honum að búa til gott sóknarlið. Liðið spilar leikkerfið 4:4:2 en því miður höfum við ekki haft tækifæri til að skoða liðið og rennum því nokkuð blint í sjóinn. Við höfum reynt að afla okkur upplýsinga frá fólki sem við þekkjum og vonandi koma þær að góðum notum,“ segir Logi.

Þekktasti leikmaður Basel er líklega framherjinn Alexander Frei, en hann hefur spilað 67 landsleiki fyrir Sviss og hefur skorað í þeim 39 mörk. Liðið er sem stendur í 4. sæti í svissnesku A-deildinni, hefur unnið tvo leiki og tapað einum leik. Basel hefur tvívegis leikið á móti íslenskum liðum í Evrópukeppninni. Árið 1973 vann liðið Fram í tveimur leikjum sem báðir voru spilaðir í Sviss, 5:0 og 6:2, og árið 2001 mætti liði Grindavík í Intertoto-keppninni og hafði betur, 2:0 og 3:0.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert