„Það er rosalega mikið áreiti á kvennalandsliðið þessa dagana og því nóg að gera,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu, við Morgunblaðið í gær. Landsliðið mætir Serbíu á Laugardalsvelli á laugardaginn og er það fyrsti leikur liðsins í undankeppni HM. Síðan liggur leiðin til Finnlands þar sem liðið tekur þátt í lokakeppni Evrópumótsins.
Sigurður Ragnar lítur þó á björtu hliðarnar á þessu öllu saman. „Mikið áreiti er betra en ekkert, en það hefur kannski verið akkilesarhællinn í kvennafótboltanum í gegnum tíðina. Nú hins vegar bregður svo við að allir fjölmiðlar vilja tala við stelpurnar og kastljósið er á þeim, ekki bara hérna heima heldur frá mörgum erlendum aðilum líka. Það er bara jákvætt að fá alla þessa athygli en það getur líka reynt á en við reynum að láta þetta ekki trufla okkur. Við beinum öllum beiðnum um viðtöl til Ómars Smárasonar hjá KSÍ og hann skipuleggur þetta fyrir okkur,“ sagði Sigurður Ragnar.
Rætt er við Sigurð Ragnar landsliðsþjálfara í Mogganum í dag.