ÍR skellti Haukum á heimavelli

Úr leik ÍR og Hauka í Breiðholtinu í kvöld.
Úr leik ÍR og Hauka í Breiðholtinu í kvöld. mbl.is/Kristinn

ÍR vann í kvöld óvæntan en verðskuldaðan sigur á Haukum, 3:0, í Breiðholtinu þar sem öll mörkin litu dagsins ljós í fyrri hálfleiknum. ÍR-ingar slitu sig þar með frá fallbaráttu 1. deildar karla í knattspyrnu því á sama tíma gerði Afturelding markalaust jafntefli við Víking í Fossvoginum. Loks vann Selfoss sigur á Leikni 3:1 og styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Átjándu umferðinni lýkur á morgun með leikjum HK og Fjarðabyggðar, Víkings Ó. og Þórs, og KA og ÍA.

Staðan í deildinni eftir leiki kvöldsins: Selfoss 38, Haukar 34, HK 32, Fjarðabyggð 29, KA 26, Leiknir R. 24, Þór 24, ÍR 23, Víkingur R. 22, ÍA 18, Afturelding 16, Víkingur Ó. 8.

ÍR - Haukar, 3:0

Leikurinn í Breiðholti var jafn fyrstu mínúturnar. Eiríkur Viljar Kúld komst í gott færi fyrir Hauka á tíundu mínútu en skaut yfir úr teignum. Á 18. mínútu átti Guðfinnur Þórir Ómarsson svo sendingu út í teiginn á Kristján Ara Halldórsson sem skoraði með frábæru skoti úr fyrstu snertingu upp í hægri markvinkilinn. Algjört draumamark.

Haukum leist illa á byrjun sína og eftir tæplega hálftíma leik, þegar leikurinn var stöðvaður vegna meiðsla eins ÍR-ingsins, kallaði Þórhallur Dan Jóhannsson liðið saman til liðsfundar á miðjum vellinum til að koma mönnum í gang.

Þetta virtist hins vegar litlu skila því á 34. mínútu átti Elías Ingi Árnason sendingu á Árna Frey Guðnason sem var við vítateigsbogann og skoraði með hnitmiðuðu skoti í hægra markhornið. Staðan því orðin 2:0 ÍR-ingum í vil og þeir voru ekki hættir því á 41. mínútu skoraði Árni Freyr sitt annað mark þegar hann fylgdi á eftir föstu skoti Guðfinns Ómarssonar og skoraði af stuttu færi.

ÍR-ingar voru því 3:0 yfir þegar liðin gengu til búningsklefa en Hilmar Rafn Emilsson komst nálægt því að minnka muninn fyrir Hauka með skalla úr teignum en hann fór rétt framhjá.

Haukar hófu seinni hálfleikinn af mun meiri krafti en heimamenn og skoruðu mark eftir um klukkutíma leik en það var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Strax í næstu sókn átti Hilmar Geir Eiðsson svo hörkuskot en boltinn fór rétt framhjá markvinklinum. Þrátt fyrir fína tilburði gestanna út seinni hálfleikinn tókst þeim ekki að minnka muninn og ÍR-ingar fögnuðu því óvæntum en verðskulduðum sigri.

Víkingur R. - Afturelding, 0:0

Þorvaldur Sveinn Sveinsson var nálægt því að koma Víkingi yfir strax á 2. mínútu en skaut í stöng fyrir opnu marki. Engin mörk voru skoruð í fyrri hálfleiknum en Þorvaldur Sveinn átti einnig skalla í stöng og þá björguðu gestirnir á marklínu í kjölfar hornspyrnu.

Staðan var enn markalaus eftir sjötíu mínútna leik í Víkinni. Heimamenn hafa verið meira með boltann og sótt af meiri krafti en gestirnir beita skyndisóknum og voru nálægt því að komast yfir þegar Paul Clapson skaut af 25 metra færi en boltinn fór í þverslána. Hvorugt liðanna kom hins vegar boltanum í netið og markalaust jafntefli niðurstaðan.

Selfoss - Leiknir R., 3:1

Sævar Þór Gíslason gaf sendingu út í vítateig Leiknismanna á Hjört Hjartarson sem skoraði með góðu skoti á 8. mínútu og kom heimamönnum í 1:0. Á 14. mínútu áttu Leiknismenn hins vegar hornspyrnu, boltinn barst inn á teiginn og þar var það Ólafur Hrannar Kristjánsson sem náði að koma boltanum yfir marklínuna eftir mikinn barning. Selfyssingar voru nálægt því að bjarga á marklínu en aðstoðardómarinn taldi boltann hafa farið inn fyrir. Staðan var enn 1:1 þegar flautað var til leikhlés.

Hjörtur Hjartarson náði forystunni aftur fyrir Selfyssinga og kom þeim í 2:1 á 76. mínútu þegar hann skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Henning Jónassyni. Guðmundur Þórarinsson innsiglaði svo sigur Selfyssinga á 85. mínútu með skoti úr teignum eftir fyrirgjöf Sævars Þórs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert