Martröð Víkinga á lokamínútum leikjanna

Egill Atlason framherji Víkings.
Egill Atlason framherji Víkings. mbl.is/Golli

Klaufaskapur, óheppni, einbeitingaleysi eða úthaldsleysi. Hvað er hægt að segja um karlalið Víkings í 1.deildinni í knattspyrnu eftir hrakfarir liðsins í síðustu leikjum?


Strákarnir hans Leifs Sigfinns Garðarssonar, þjálfarans góðkunna og sparkspekings, hafa tapað fjórum leikjum í röð í deildinni, gegn Selfossi  (1:2), Þór Akureyri (0:1), Leikni Reykjavík (1:2) og Fjarðabyggð (2:3) og í öllum leikjunum hafa þeir fengið á sig mark á lokamínútunum sem hefur ráðið úrslitum leikjanna.

Þegar úrslit leikja Víkings í 1. deildinni í sumar eru skoðuð kemur í ljós að obbinn af mörkunum sem Víkingar hafa fengið á sig hafa komið í seinni hálfleik, eða 19 af þeim 27.

Og það er ekki síst á lokamínútunum sem vörn þeirra röndóttu hefur lekið
inn mörkum því á síðustu 15 mínútunum í leikjunum hafa Víkingar fengið á sig 14 mörk. Víkingarnir væru því eflaust  í toppbaráttu deildarinnar ef leikirnir stæðu yfir í 80 mínútur í stað 90.

Víkingar eru í áttunda sæti deildarinnar með 21 stig. Úrvalsdeildardraumurinn er fyrir bý en Víkingur, sem fimm sinnum hefur hampað Íslandsmeistaratitlinum, síðast árið 1991, er ekki laust við falldrauginn enda aðeins sex stigum frá fallsæti þegar fimm umferðum er
ólokið.

Víkingur tekur á móti Aftureldingu í 1. deildinni í kvöld klukkan 18.30 og þá mætast einnig Selfoss og Leiknir R. á Selfossi og ÍR og Haukar á ÍR-velli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert