Franska íþróttablaðið L’Equipe heldur áfram að fjalla um væntanleg félagaskipti Eiðs Smára Guðjohnsen frá Barcelona til Mónakó í dag en að sögn blaðsins ganga samningaviðræður vel og eru Börsungar sagðir reiðubúnir að láta Eið Smára fara án greiðslu en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við Katalóníuliðið.
Reiknað er með að Eiður Smári geri tveggja ára samning við Mónakó og að því er fram kemur í L’Equipe mun Eiður fá 3 milljónir evra í árslaun sem jafngildir um 540 milljónum króna. Blaðið heldur því fram að hann komi til með að lækka í launum eða sem nemur 1 milljón evra, 180 milljónum króna.