Eiður Smári Guðjohnsen skrifaði í kvöld undir tveggja ára samning við franska liðið Mónakó. Eiður gekkst undir ítarlega læknisskoðun hjá félaginu í dag og þegar allri pappírsvinnunni lauk á milli Mónakó og Barcelona ritaði Eiður undir samninginn. Arnór Guðjohnsen, faðir Eiðs og umboðsmaður, var ánægður með samninginn þegar mbl.is. náði tali af honum í kvöld.
„Þetta tók sinn tíma enda töluverð pappírsvinna sem þurfti að klára. Við erum mjög ánægðir með samninginn og við fundum að það var mikill áhugi hjá Mónakó að fá Eið í sínar raðir,“ sagði Arnór í samtali við mbl.is í kvöld.
Eiður Smári hefur fengið úthlutað keppnistreyju með númerinu 9 og hann leikur sinn fyrsta leik með Mónakó þann 12. september þegar liðið fær París SG í heimsókn.
Viðtal við Eið Smára á vef Mónakó.