,,Allir þeir leikmenn sem ég vildi fá í leikina voru tilbúnir að því undanskildu að Arnór Smárason er meiddur," sagði Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari þegar hann tilkynnti landsliðshópinn sem mætir Norðmönnum í undankeppni HM á laugardaginn og mætir síðan Georgíumönnum í vináttuleik á miðvikudaginn.
,,Þetta er svona nokkuð hefðbundinn hópur og kannski fátt sem kemur á óvart. Óneitanlega er leikurinn á laugardaginn mikilvægari fyrir Norðmenn heldur en okkur með tilliti til stöðunnar í riðlinum en ég lít á leikinn sem mjög mikilvægan fyrir okkur líka. Það eru allir leikir mikilvægir,“ sagði Ólafur í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.
,,Norski landsliðsþjálfarinn er búinn að gefa það út að hann ætli að láta liðið spila meiri sóknarleik en oft áður og það eru yfirleitt skemmtilegustu leikirnir þegar sóknarleikur er í boði. Ég tel okkur eiga góða möguleika á að vinna og við förum að sjálfsögðu með því hugarfari til leiksins,“ sagði Ólafur.
Fyrirliðinn Hermann Hreiðarsson hefur ekkert leikið með Portsmouth á leiktíðinni vegna meiðsla en spurður hvort hann sé klár í slaginn á laugardaginn sagði Ólafur; ,,Hermann er orðinn heill heilsu. Hann var hundfúll yfir því að vera á bekknum á sunnudaginn sem segir mér að hann er tilbúinn að spila. Eins og við vitum er Hermann mikill keppnismaður og ég hef engar áhyggjur af honum þó ég hefði kosið að hann væri búinn að spila eitthvað.“
Um valið á Veigari Páli sagði Ólafur; ,,Veigar hefur átt erfitt uppdráttar í Frakklandi en við höfum rætt saman. Hann er góðu líkamlegu ástandi og hefur sjaldan verið í betra formi. Hann hefur spilað með varaliðinu en hann er stórt nafn í Noregi og ef ég þekki Norðmenn rétt þá eru þeir skíthræddir við hann, vitandi að hann er á landinu. Mér fannst upplagt að velja hann í þetta verkefni núna.“