Stúlknalandslið Íslands í knattspyrnu, U17 ára, kom mjög á óvart í dag þegar það gerði jafntefli við Evrópumeistaralið Þýskaland, 0:0, á Vodafonevellinum að Hlíðarenda. Þetta var fyrsti leikur liðanna í undanriðli Evrópumótsins sem fram fer hér á landi.
„Við náðum að lifa af þunga sókn þýska liðsins fyrstu 10 mínúturnar og komumst síðan smám saman inní leikinn. Með heppni hefðum við jafnvel getað tryggt okkur sigur áður en yfir lauk. En þetta eru frábær úrslit og það gekk í raun allt upp hjá okkur að þessu sinni," sagði Þorlákur Árnason þjálfari íslenska liðsins við mbl.is.
Frakkland vann Ísrael, 8:0, á KR-vellinum í dag. Ísland leikur gegn Frakklandi í Grindavík á sunnudaginn og sá leikur hefur úrslitaþýðingu um möguleika íslenska liðsins á að komast áfram í keppninni.