Ólafur Jóhannesson: Með ólíkindum að við skyldum ekki vinna

Ólafur Jóhannesson ásamt aðstoðarmanni sínum Pétri Péturssyni.
Ólafur Jóhannesson ásamt aðstoðarmanni sínum Pétri Péturssyni. mbl.is/Ómar

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu var mjög ánægður með spilamennsku liðsins eftir 1:1 jafntefli gegn Norðmönnum í kvöld. Hann sá þó eðlilega eftir mörgum dauðafærum sem íslenska liðinu tókst ekki að nýta í leiknum.

„Mér fannst við spila fínan leik. Mér fannst vera bara eitt lið á vellinum nánast allan leikinn. Það var bara með ólíkindum að við skyldum ekki vinna þennan leik en ég er hrikalega sáttur við leikinn og ánægður með leikmenn mína. Þeir stóðu sig frábærlega,“ sagði Ólafur á blaðamannafundi í kvöld og sagði menn hafa viljað ná þremur stigum til þess að laga stöðuna í riðlinum:

„Við sem að þessu stöndum vorum ekki sátt við útkomuna í riðlinum fram að þessum leik og ætluðum okkur að ná í þrjú stig. Það er talsverður munur á því að vera með 4 stig í riðlinum eða 7 stig. Menn gerðu sér grein fyrir því að möguleiki var að bjarga andlitinu, að hluta til alla vega, með því að ná í þrjú stig í dag. Það tókst ekki en ég held að frammistaða liðsins sýni að liðið er í góðu standi og getur spilað fótbolta. Þessi frammistaða var góð fyrir sjálfstraust leikmanna.“

Ítarlega er fjallað um leik Íslands og Noregs í íþróttablaði Morgunblaðsins á mánudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert