„Þetta er gríðarlega svekkjandi. Ég er hrikalega pirraður að hafa ekki klárað þetta færi og sérstaklega í ljósi þess að hafa átt stangarskot úti í Noregi líka. Með því að skora hefðu bara þessi færi getað fært okkur fjögur stig til viðbótar,“ sagði Veigar Páll Gunnarsson í samtali við mbl.is eftir leik Íslands og Noregs í undankeppni HM í knattspyrnu kvöld þar sem hann átti stangarskot skömmu eftir að hafa komið inná sem varamaður, rétt eins og í leiknum í Noregi fyrr í keppninni.
„Við erum náttúrulega hundóánægðir með að vinna ekki leikinn en þó það sé kannski asnalegt að segja það þá held ég að við getum verið ánægðir með hvað við spiluðum vel. Ég held að margir áhorfendur séu eflaust hissa á því hvað við spiluðum vel og það kemur mér í raun á óvart að Norðmenn skuli ekki vera betri en þetta fyrst þeir eiga séns á að komast áfram í þessari keppni,“ sagði Veigar sem tók undir að í ljósi þess að Norðmenn eigi enn möguleika á að fara til Suður-Afríku sé árangur íslenska liðsins dapur.
„Við náttúrulega höfum verið þekktir fyrir það að geta spilað glimrandi í einum leik en skitið á okkur í þeim næsta og við verðum að finna meira jafnvægi. Það er okkar akkilesarhæll,“ sagði Veigar sem var ánægður með að geta aftur leikið með landsliðinu.
„Það er frábært að vera valinn í landsliðið aftur og ég var staðráðinn í að sýna mig. Maður er náttúrulega glorhungraður í að spila fótbolta þannig að þegar maður fær tækifæri til þess vill maður nýta það,“ sagði Veigar en hann hefur lítið fengið að spila með liði sínu Nancy í Frakklandi eftir að hann kom þangað frá Stabæk í Noregi.
„Það virðist allt vera í rugli þarna og ég veit í raun ekkert um það af hverju staðan er svona.“