Baldur Sigurðsson úr KR og Bjarni Ólafur Eiríksson úr Val hafa verið valdir í íslenska landsliðshópinn sem mætir Georgíu í vináttuleik í knattspyrnu á miðvikudagskvöld. Fimm þeirra leikmanna sem valdir voru í hópinn fyrir leikinn gegn Noregi í gær verða ekki með á miðvikudaginn.
Aron Einar Gunnarsson og Rúrik Gíslason, sem báðir voru í byrjunarliði Íslands í gær, leika með U21-landsliðinu gegn Norður-Írlandi í undankeppni EM á þriðjudaginn og verða því ekki með A-landsliðinu á miðvikudaginn. Sölvi Geir Ottesen á við meiðsli að stríða og þeir Eiður Smári Guðjohnsen og Brynjar Björn Gunnarsson fá frí til að vera með félagsliðum sínum.
Pálmi Rafn Pálmason verður tiltækur á ný á miðvikudaginn eftir að hafa tekið út leikbann í leiknum í gær.