Drillo svarar Eiði fullum hálsi

Eiður átti frábæran leik fyrir Ísland í gær og skoraði …
Eiður átti frábæran leik fyrir Ísland í gær og skoraði jöfnunarmarkið. mbl.is/Heiðar

Eiður Smári Guðjohnsen gagnrýndi leikstíl norska landsliðsins undir stjórn Egil Drillo Olsen í samtali við norska fjölmiðla í gær eftir leik Íslands og Noregs í undankeppni HM í knattspyrnu í gær. Olsen svarar Eiði fullum hálsi í samtali við Verdens Gang í dag og sakar hann um fordóma gagnvart „Drillo-aðferðinni“.

Spilamennska norska liðsins undir stjórn Drillo gengur að miklu leyti út á langar sendingar fram á stóra og sterka framherja og þykir ekki mjög áferðarfögur. Kvaðst Eiður ekki vilja spila þannig knattspyrnu en þjálfarinn gefur lítið fyrir þau ummæli.

„Þá er hann í vandræðum því Ísland er það lið sem kemst næst því að leika í „Drillo-stíl“ af þeim liðum sem ég hef séð spila. Hann er þá væntanlega ekki ánægður með leikaðferð íslenska liðsins,“  sagði Drillo í dag og hann vildi meina að Eiður væri einfaldlega með fordóma gagnvart „Drillo-aðferðinni“ svokölluðu.

„Ég er ekki viss um að Eiður viti almennilega um hvað „Drillo-fótbolti“ snýst. Hversu marga leiki Noregs haldið þið að hann hafið sé? Þetta eru bara fordómar sem eru í gangi,“ sagði Drillo.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert