Freyr Alexandersson: Kristín er toppklassa framherji

Kristín Ýr Bjarnadóttir í leik gegn Stjörnunni.
Kristín Ýr Bjarnadóttir í leik gegn Stjörnunni. mbl.is/Kristinn

Freyr Alexandersson þjálfari kvennaliðs Vals í knattspyrnu er á góðri leið með að hampa Íslandsmeistaratitlinum á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari eftir 2:0 sigur á Stjörnunni í Garðabæ í kvöld.

Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik tókst Valskonum að skora tvívegis í síðari hálfleik og var þar á ferðinni markadrottningin Kristín Ýr Bjarnadóttir í báðum tilfellum. 

„Ég var ekki sáttur við fyrri hálfleikinn því þá vildi ég skora mark. Við töluðum um í hálfleik að framkvæma þá hluti sem við töluðum um á æfingasvæðinu. Við töluðum um að laga sendingar og móttöku á bolta. Fara að tvímenna í vængspilinu og það skilaði okkur tveimur mörkum í síðari hálfleik. Kristín er náttúrlega toppklassa framherji og skilaði tveimur mörkum,“ sagði Freyr í samtali við mbl.is að leiknum loknum. Hann sagðist hafa skynjað taugaveiklun hjá sínum leikmönnum framan af leik:

„Ég varð ekki var við það fyrir leikinn en þegar ég horfði á þær inni á vellinum þá sá ég að þær voru staðar og sendingarnar voru lélegar. Það hafði áhrif á gæði leiksins og fyrri hálfleikurinn hefur örugglega verið hundleiðinlegur á að horfa,“ sagði Freyr ennfremur. 

Ítarlega er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Freyr á góðri stundu með leikmönnum sínum.
Freyr á góðri stundu með leikmönnum sínum. mbl.is/hag
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert