Íslenska landsliðið í knattspyrnu karla vann sinn fyrsta sigur í sjö mánuði þegar það vann Georgíu örugglega, 3:1, í vináttulandsleik á Laugardalsvelli í kvöld. Staðan í hálfleik var 2:1. Garðar Jóhannsson kom íslenska liðinu yfir á 14. mínútu og fjórum mínútum síðar bætti Ólafur Ingi Skúlason við öðru marki. Veigar Páll Gunnarsson skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu á 55. mínútu.
Leikur íslenska liðsins datt talsvert niður síðustu 20 mínútur fyrri hálfleiks. Þá komst slakt georgískt landslið inn í leikinn og tókst að minnka muninn í 2:1, eftir rúmlega hálftíma leik.
Íslenska liðið lagaðist aftur í síðari hálfleik og réði það lögum og lofum á leikvellinum allt til leiksloka.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Byrjunarlið Íslands: Gunnleifur Gunnleifsson - Bjarni Ólafur Eiríksson, Ólafur Ingi Skúlason, Kristján Örn Sigurðsson, Indriði Sigurðsson, Grétar Rafn Steinsson (F), Helgi Valur Daníelsson, Stefán Gíslason, Garðar Jóhannsson, Veigar Páll Gunnarsson, Emil Hallfreðsson.
Varamenn: Hannes Þór Halldórsson (M), Baldur Sigurðsson, Davíð Þór Viðarsson, Björgólfur Takefusa, Birkir Már Sævarsson, Pálmi Rafn Pálmason, Atli Viðar Björnsson.