„Ég er fyrst og fremst ánægður með að vinna leikinn, er alveg gríðarlega sáttur við það,“ sagði Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, eftir 3:1-sigur á Georgíu á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Þetta var fyrsti sigur íslenska landsliðsins frá því í febrúar þegar það lagði Liechtenstein. „ÞEIR voru ellefu á vellinum eins og við, annars er ég ekkert að velta mér of mikið upp úr andstæðingnum. Fyrir mér er íslenska landsliðið aðalatriðið,“ sagði Ólafur, spurður um að margra mati slakt lið Georgíumanna.
„Ég var ánægður með margt af því sem ég sá í leik íslenska landsliðsins að þessu sinni. Við byrjuðum mjög vel, skoruðum tvö mörk snemma leiks. Eftir það fórum við út í að gera of flókna hluti sem er nokkuð sem við getum ekki leyft okkur. Þess í stað áttum við að halda áfram þeirri ró sem var yfir leik okkar. Við lentum í basli með leik okkar í síðari hluta fyrri hálfleiks en við fórum vel yfir málin í hálfleik. Fyrir vikið var síðari hálfleikur ágætur, við héldum boltanum vel. Þannig að á heildina litið er ég vel sáttur,“ sagði Ólafur.
Sjá nánar viðtal við Ólaf og leikmenn íslenska liðsins í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag, í ítarlegri umfjöllun um leikinn.