Gunnlaugur: Kveð Selfoss með söknuði

Gunnlaugur Jónsson kom Selfyssingum upp í efstu deild í fyrsta …
Gunnlaugur Jónsson kom Selfyssingum upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins. mbl.is/Guðmundur Karl

„Það er sirka vika síðan Valsmenn höfðu samband við Selfoss til að fá leyfi til að ræða við mig. Viðræðurnar gengu frekar fljótt fyrir sig og ég sé sá bara strax að þetta væri of gott tækifæri til að neita því,“ sagði Gunnlaugur Jónsson þjálfari Selfyssinga sem samið hefur við Valsmenn um að þjálfa þá í Pepsideild karla á næstu leiktíð.

„Einhver hluti leikmanna vissi af þessu máli fyrir leikinn og það má vel vera að þessar stóru fréttir hafi eyðilagt stemninguna eitthvað. Við ákváðum að blanda þessu ekki inn í undirbúninginn fyrir leikinn og það tókst næstum því að halda þessu frá fjölmiðlum fram yfir hann,“ sagði Gunnlaugur eftir tapið gegn Haukum í dag.

„Valsmenn lögðu áherslu á að klára þjálfaramálin sem fyrst og vildu vita hvort ég væri klár í slaginn. Það verða aðrir að dæma um hvort það sé taktlaust en fótboltaheimurinn er bara þannig á Íslandi að með því að bíða fram yfir október með að ráða þjálfara þá missa liðin af leikmönnum þó reglur segi annað.

Svona er bara fótboltinn. Þetta er ekki einsdæmi í heiminum þó mönnum finnist þetta kannski hljóma skringilega. Valsmenn gáfu mér þetta tækifæri til að þjálfa eitt af stóru félögunum og ég vildi auðvitað nýta það,“ sagði Gunnlaugur en honum er nú falið það verkefni að hífa Valsliðið upp úr öldudalnum sem það er í.

„Það þarf klárlega að gera breytingar á þessum leikmannahópi en við sjáum bara til hversu miklar. Það á að fara að einblína á yngri leikmenn svo þetta er allt mjög spennandi,“ sagði Gunnlaugur sem hefur náð frábærum árangri á sínu fyrsta ári sem þjálfari.

„Ég kveð Selfoss að sjálfsögðu með söknuði. Mér hefur líkað ótrúlega vel þarna og það var ekki í áætlunum mínum að fara núna. Ég held að það sé óumdeilt að ég hef byggt upp frábært lið þarna og þetta var hrikalega erfið ákvörðun,“ sagði Gunnlaugur sem er ánægður með samninginn sinn við Val.

„Samningurinn er góður en þessi ákvörðun er tekin af „fótboltalegum“ ástæðum. Þetta er stórt félag og ég sé mikil tækifæri þarna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert