„Við ætluðum auðvitað að koma hingað og tryggja okkur gullið endanlega en það gekk ekki upp því við tókum upp á því í fyrsta skiptið í sumar að gefa hreinlega tvö mörk á silfurfati. Það getur maður ekki gert gegn Haukum,“ sagði Sævar Þór Gíslason eftir 3:2 tap Selfyssinga gegn Haukum í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Hann var afar ósáttur við fréttir dagsins af ráðningu Gunnlaugs Jónssonar sem þjálfara Vals.
„Leikmenn fréttu þetta tveimur tímum fyrir leik þegar þeir voru að þvælast á netinu í símanum. Mér finnst þetta ömurleg vinnubrögð, bæði hjá Valsmönnum sem geta ekki drullast til að bíða þar til eftir tímabilið, og eins hjá Gunnlaugi þó ég skilji hans sjónarmið. Hann vill taka við stóru félagi þó mér finnist nú reyndar Valur ekki stórt félag,“ sagði Sævar.
„Þetta var kjaftshögg fyrir menn. Gunnlaugur talaði ekkert um þetta við okkur fyrir leikinn en ræddi þetta svo eftir leikinn og við erum bara staðráðnir í að klára þetta tímabil með því að lyfta dollunni heima,“ bætti Sævar við áður en hann þakkaði Gunnlaugi fyrir sín störf.
„Ég vil ekki skíta yfir Gunnlaug því hann er alveg frábær karakter og frábær þjálfari eins og við höfum kynnst á Selfossi. Hann er búinn að gera þetta lið að því sem það er í dag og ég er honum gríðarlega þakklátur en þetta eru skítleg vinnubrögð, bæði hjá honum og Val.“