„Ég vona að menn verði klárir í þennan leik,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram um undanúrslitaleikinn við KR í bikarkeppninni í knattspyrnu í dag og bætti síðan við: „Við mætum í það minnsta til leiks!“ Leikur liðanna hefst á Laugardalsvelli klukkan 16.
„Hlutirnir gengu vel upp hjá okkur þegar við mættum KR hér á Laugardalsvelli og raunar hafa hlutirnir gengið ágætlega hjá okkur. Þetta er hins vegar talsvert öðruvísi leikur en að sama skapi reynum við að búa okkur undir hann eins og aðra leiki. Ég á nú samt von á að það sé aðeins öðruvísi fiðringur í mönnum, enda undanúrslit og síðasti hjallinn til að komast í stóra leikinn svokallaða. Það getur oft orðið ansi erfiður hjalli því menn eru komnir þetta langt og vilja því ólmir komast lengra," sagði Þorvaldur.
Framarar hafa í nokkrum leikjum í sumar náð að knýja fram sigur alveg í lokin og hafa með því sýnt mikla þolinmæði, sem er einmitt það sem margir segaja að þurfi í svona undanúrslitaleiki.
„Það má kannski segja að við höfum þroskast betur sem lið núna í sumar. Núna erum við hins vegar að fara inn í síðasta hluta sumarsins og þá eru þessir leikir oft mikilvægari, bæði bikarinn núna hjá okkur og eins síðustu leikirnir í deildinni því þeir skera úr um hvernig sumarið endar. Menn geta átt gott tímabil en tapað nokkrum leikjum í lokin og þá eru menn dæmdir af þeim leikjum í sögubókunum.
Það gerir það enn skemmtilegra og ég held að strákunum hlakki dálítið til að spila þessa leiki sem eftir eru, bæði þennan leik og eins þá sem eftir eru í deildinni. Þá snýst það um að hafa þolinmæði til að fást við allt dæmið," sagði Þorvaldur.
Spurður um hvort það væri plús fyrir Fram að leika á Laugardalsvelli sagði hann: „Það er nú dálítið sérstakt að oft er talað um að Fram eigi engan heimavöll, en svo þegar kemur í undanúrslit og úrslit bikarsins þá er þetta rosalega mikill heimavöllur. Þetta er auðvitað þjóðarleikvangurinn og við höfum spilað hér í mörg ár og gengið vel.
Þetta er besti völlur landsins enda vel hugsað um hann og við erum heppnir að fá að njóta góðs af því. Það er gaman fyrir aðra knattspyrnumenn að koma hingað og spila og það vegur kannski eitthvað upp á móti," sagði Þorvaldur.