Til umræðu er hjá stjórnarmönnum argentínska knattspyrnusambandsins að reka landsliðsþjálfarann Diego Maradona frá störfum að því er fjölmiðlar í Argentínu greina frá.
Argentínumenn eiga það á hættu að missa af úrslitakeppni HM í fyrsta sinn síðan árið 1970 en hvorki hefur gengið né rekið hjá liðinu undir stjórn goðsagnarinnar sem tók við landsliðsþjálfarastarfinu af Alfio Basile í nóvember í fyrra.
Argentína er í fimmta sæti í S-Ameríkuriðlinum en fjórar efstu þjóðirnar vinna sér keppniréttinn á HM í Suður-Afríku á næsta ári en liðið í fimmta sæti verður að fara í umspil.
Argentínumenn eiga eftir að mæta Perú á heimavelli, en Perúmenn eru á botninum, og í lokaumferðinni sækja Argentínumenn lið Úrúgvæa heim en Úrúgvæar eru aðeins stigi á eftir Argentínumönnum og því gæti hreinlega verið um úrslitaleik að ræða hvor þjóðin eigi möguleika á að komast á HM.