Eiður fullkominn leikmaður

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

NÝR kafli hefst í knattspyrnusögu Eiðs Smára Guðjohnsens í kvöld en þá leikur hann sinn fyrsta leik með Mónakó í frönsku 1. deildinni þegar liðið tekur á móti París SG á Stade Louis II-vellinum í furstadæminu Mónakó.

Eiður, sem verður í treyju með númerinu 9 á bakinu, fær það hlutverk að blása lífi í sóknarleik Mónakóliðsins en liðið hefur aðeins náð að skora þrjú mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni og er í 12. sæti með sex stig, en toppliðin þrjú, Bordeaux, Lyon og París SG, hafa öll 10 stig.

Landsliðsmarkvörðurinn Gregory Coupet, sem stendur á milli stanganna hjá Parísarliðinu, varar samherja sína við Eiði Smára í viðtali sem birt er við hann á heimasíðu liðsins.

„Nýju leikmennirnir þeirra, Coutadaur og sérstaklega Guðjohnsen, munu án efa styrkja lið Mónakó. Guðjohnsen er kraftmikill sóknarmaður sem á það til að draga varnarmennina að sér og opna þannig leið fyrir samherja sína,“ segir hinn 36 ára gamli Coupet, sem kom til París SG fyrir tímabilið eftir eins árs dvöl hjá Atlético Madrid, en þar áður gerði hann garðinn frægan með Lyon.

Guy Lacombe, þjálfari Mónakó, væntir mikils af Eiði Smára sem og stuðningsmenn félagsins en þeir vonast til þess að Eiður nái að rífa það upp úr þeim öldudal sem það hefur verið í undanfarin ár. Mónakó varð meistari síðast árið 2000 og komst í úrslit Meistaradeildarinnar fyrir fimm árum en síðustu árin hafa verið mögur hjá liðinu.

Verður framherji til að byrja með

„Hann er fullkominn leikmaður. Hann getur spilað hvar sem er á vellinum. Til að byrja með mun hann leika sem framherji, við keyptum hann til að spila þá stöðu og sem framherji átti hann afar góðu gengi að fagna með Chelsea,“ sagði Lacombe við franska fjölmiðla.

París SG og Mónakó eru þau félög sem lengst hafa leikið samfleytt í frönsku 1. deildinni. Parísarliðið hefur leikið þar síðan 1974 og Mónakó síðan 1976. Á síðustu 34 árum hefur París SG aðeins þrisvar náð að sækja sigur til furstadæmisins, en reyndar hefur það unnið þar tvö undanfarin ár og því náð að brjóta ísinn.

Sjöundi Íslendingurinn í deildinni

Eiður Smári verður sjöundi Íslendingurinn sem leikur í frönsku 1. deildinni og sá fyrsti sem klæðist búningi Mónakó. Hann fetar í fótspor Arnórs föður síns sem lék í tvö ár með Bordeaux.

*Albert Guðmundsson lék með Nancy, Racing Club og Nice á árunum 1947 til 1955.

*Þórólfur Beck lék með Rouen tímabilið 1966-67.

*Karl Þórðarson lék með Laval frá 1981 til 1984.

*Teitur Þórðarson lék með Lens frá 1981 til 1983.

*Arnór Guðjohnsen lék með Bordeaux í deildinni 1990-91 og í 2. deild veturinn eftir.

*Veigar Páll Gunnarsson kom til Nancy í byrjun þessa árs.

*Þá lék Arnar Gunnlaugsson með Sochaux í frönsku 2. deildinni á árunum 1995 til 1997.

Byrjun Eiður Smári Guðjohnsen klæðist búningi Mónakó í fyrsta skipti annað kvöld þegar liðið tekur á móti París SG í frönsku 1. deildinni á Stade Louis II leikvanginum í furstadæminu. Eiður er fyrsti Íslendingurinn sem spilar með Mónakó og sá sjöundi sem leikur í 1. deild í Frakklandi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert