Ef það er fjárhagslega mögulegt mun Stabæk reyna að fá landsliðsmanninn Veigar Pál Gunnarsson til baka frá franska liðinu Nancy í janúar. Þetta segir formaður félagsins, Ingebrigt Steen Jensen, við norska blaðið Verdens Gang í dag.
,,Það fer eftir því hversu mikið Nancy vill fá fyrir hann,“ segir formaðurinn en Veigar Páll yfirgaf norska liðið í janúar og gerði þriggja og hálfs árs samning við Nancy.
Veigar hefur fengið fá tækifæri með liðinu frá því hann kom til þess og í síðustu leikjum hefur hann ekki einu sinni sinni verið í leikmannahópnum.
,,Ég vil gjarnan fara aftur til Stabæk. Ef ég fæ ekkert að spila með Nancy í haust þá mun fara fram á það að verða seldur frá félaginu,“ segir Veigar Páll við Verdens Gang.