Guðmundur Benediktsson verður næsti þjálfari Selfyssinga í knattspyrnu samkvæmt öruggum heimildum mbl.is. Selfyssingar hafa boðað til fréttamannafundar síðdegis í dag þar sem tilkynnt verður um ráðningu Guðmundar.
Guðmundur hefur ekki áður þjálfað en hann er þrautreyndur knattspyrnumaður sem hóf feril sinn með Þór á Akureyri en hefur einnig leikið með KR og Val og þá lék hann um tíma í Belgíu með liðum Geel og Ekeren.
Eins og kunnugt er tryggðu Selfyssingar sér sæti í efstu deild karla í fyrsta skipti í sögunni á dögunum. Gunnlaugur Jónsson var þjálfari liðsins í sumar en hann ákvað að taka tilboði Valsmanna.