Formlega var gengið frá samningi milli Knattspyrnusambands Íslands og Ólafs Jóhannessonar, landsliðsþjálfara í knattspyrnu karla, um að hann stýri íslenska landsliðinu áfram næstu tvö árin. Samkomulag náðist fyrir fáeinum dögum en ekki var skrifað undir samninginn fyrr en í dag. Tvö ár eru liðin frá að Ólafur tók við starfi landsliðsþjálfara af Eyjólfi Sverrissyni.
Gert er ráð fyrir að aðstoðarmenn Ólafs verði þeir sömu, þ.e. Pétur Pétursson, aðstoðarþjálfari og Bjarni Sigurðsson, markvarðaþjálfari.
Ólafur hefur stjórnað landsliðinu í 21 landsleik til þessa. Ísland hefur unnið 7 leiki, 4 hafa endað með jafntefli en 10 leikir hafa tapast. Enn eru tveir landsleikir eftir á þessu ári, báðir vináttulandsleikir. Ísland tekur á móti Suður Afríku á Laugardalsvelli 13. október næstkomandi og leikið verður við Lúxemborg ytra 14. nóvember.