Willum Þór Þórsson nýráðinn þjálfari úrvalsdeildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu skrifaði í gærkvöld undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Keflavíkur í K-húsinu í Keflavík.
Eftir undirskriftina ræddi Willum Þór við leikmenn liðsins og stjórnarmenn en miklar vonir eru bundnar við störf hans hjá suðurnesjaliðinu. Willum tekur Keflavíkurliðinu af Kristjáni Guðmundssyni sem hefur verið við stjórnvölinn síðustu fimm árin en undir hans stjórn varð Keflavík í sjötta sæti Pepsi-deildarinnar á nýafstöðu keppnistímabili.
Keflavík er fimmta liðið sem Willum Þór stýrir en hann hefur þjálfað samfellt frá árinu 1997. Hann hóf þjálfaraferilinn hjá Þrótti Reykjavík en hefur síðan þjálfað Hauka, KR og Val. Undir hans stjórn varð KR tvívegis Íslandsmeistari og Valur varð Íslandsmeistari og bikarmeistari í hans tíð.