„Það skiptir öllu máli að vinna en þetta var enginn sambabolti af okkar hálfu. Það voru engir meistarataktar í gangi í dag en við vörðumst mjög vel. Við vissum að þeir halda boltanum vel en við hefðum mátt gera það betur,“ sagði Rúrik Gíslason eftir sigur Íslands á Suður-Afríku í vináttulandsleik í knattspyrnu í kvöld.
Rúrik og Grétar Rafn Steinsson náðu vel saman á hægri kantinum í leiknum í kvöld og komst Rúrik meðal annars í gott færi í seinni hálfleiknum sem honum tókst þó ekki að nýta.
„Ég átti að gera betur í þessu færi en ég verð bara að æfa þetta á næstu æfingum að setja boltann í fjærhornið. Mér finnst alveg frábært að hafa Grétar Rafn þarna því hann stjórnar manni vel og er svo duglegur að taka þátt í sóknarleiknum. Það er frábært að spila með honum en ekki bara honum því mér fannst allir vera að leggja sig 100% fram og við förum langt á því,“ sagði Rúrik sem er ungur að árum og hefði getað spilað með U-21 landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins í dag. Ólafur Jóhannesson vildi hins vegar frekar að hann spilaði með A-landsliðinu og Rúrik er sáttur við það.
„Ég vil ekkert gera upp á milli A-landsliðsins og U21-landsliðsins. Óli ræður þessu og það skiptir mig engu máli hvoru liðinu ég spila með. Það er alltaf hrikalega gaman að spila fyrir landsliðið og ég hef alltaf jafn gaman að því að koma hingað, hvort sem það er í október eða júní.“