,,Það er geysilega gaman að snúa aftur til ÍBV og það eru spennandi tímar framundan í Eyjum," sagði Tryggvi Guðmundsson, knattspyrnumaður, við mbl.is eftir að hafa skrifað undir þriggja ára samning við Eyjamenn í dag.
Tryggvi hóf feril sinn með ÍBV og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 1997 en það var síðasta árið sem hann spilaði með Eyjaliðinu. Undanfarin fimm ár hefur hann leikið með FH-ingum.
,,Mér er ætlað stórt hlutverk með ÍBV á komandi árum og ég lít á það sem mikla áskorun sem ég hef alltaf þrifist á. Ég átti frábæran tíma með FH og það er mjög erfitt að yfirgefa svona flottan og stóran klúbb eins og FH er,“ sagði Tryggvi við mbl.is.
Þá skrifaði Fjölnismaðurinn Ásgeir Aron Ásgeirsson undir samning við ÍBV en hann hefur leikið með Fjölnismönnum frá árinu 2006. Ásgeir er sonur Ásgeirs Sigurvinssonar sem hóf sinn glæsilega feril með ÍBV.
Nánar er fjallað um félagaskiptin og viðtöl við þá Tryggva og Ásgeir í Morgunblaðinu á morgun.