„Hlakka til að komast héðan“

Garðar Jóhannsson er ósáttur við sína stöðu hjá Fredrikstad.
Garðar Jóhannsson er ósáttur við sína stöðu hjá Fredrikstad. mbl.is/Ómar

Garðar Jóhannsson landsliðsmaður í knattspyrnu er hundóánægður með stjórnarmenn norska úrvalsdeildarfélagsins Fredrikstad, sem hann hefur verið á mála hjá frá ársbyrjun 2007.

„Ég hlakka til loka leiktíðarinnar og að geta þá komist héðan,“ sagði Garðar í viðtali við sjónvarpsstöðina TV2 þar sem hann gagnrýnir stjórnarmenn félagsins harðlega. Hann er ósáttur við að hafa ekki fengið nýjan samning í vor eins og búið var að lofa honum en núverandi samningur hans rennur út í lok yfirstandandi leiktíðar.

Stjórnarmenn Fredrikstad báru fyrir sig skort á fjármagni en skömmu síðar festi félagið þó engu að síður kaup á tveimur nýjum leikmönnum.

„Stjórnarmennirnir komu til mín, sögðust ætla að gefa mér nýjan samning og tilkynntu það svo á fréttamannafundi. Mánuði síðar sögðust þeir ekki geta það vegna þess að það væru ekki nægir peningar til staðar. Þeir hafa ekki komið vel fram við leikmennina sína,“ sagði framherjinn stæðilegi sem er einnig afar ósáttur við að hafa svo ekki verið leyft að fara til enska 2. deildarfélagsins Hartlepool þegar það sóttist eftir að fá hann í sínar raðir nýverið.

Fredrikstad tapaði í gær fyrir Molde á heimavelli, 2:1, og kom Garðar þá inná sem varamaður á 80. mínútu. Hann krækti í vítaspyrnu skömmu síðar sem færði Fredrikstad mark. Þessi úrslit þýða hins vegar að Fredrikstad endar í þriðja neðsta sæti deildarinnar og þarf að spila við lið úr 1. deild um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Garðar kom til Fredrikstad frá Val í ársbyrjun 2007 en var þar áður hjá KR og Stjörnunni. Hann hefur skorað 17 mörk í 56 leikjum í norsku úrvalsdeildinni. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert