Athlægi aldarinnar

Manuel Pellegrini þjálfari Real Madrid.
Manuel Pellegrini þjálfari Real Madrid. Reuters

Öll spjót standa nú á Manuel Pellegrini þjálfara spænska knattspyrnuliðsins Real Madrid eftir háðuglegt tap liðsins gegn 3. deildarliðinu Alcorcon í fyrri viðureign liðanna í 32-liða úrslitum spænsku bikarkeppninnar í gærkvöld. Smáliðið, sem er í útjaðri Madridarborgar og er 38 ára gamalt, gerði sér lítið fyrir og burstaði stórliðið, 4:0, að viðstöddum 3.000 áhorfendum en staðan eftir fyrri hálfleikinn var, 3:0.

Þó svo að tveir af dýrustu knattspyrnumönnum heims, Cristiano Ronaldo og Kaká, hafi ekki verið með þá var Madridarliðið stjörnum prýtt í leiknum.

Leikmenn eins og gulldrengurinn Raúl, Karim Benzema, Alvaro Arbeloa, Raul Albiol, Rafael Van Der Vaart, Guti og Ruud van Nistelrooy, sem kom inná sem varamaður, tóku þátt í leiknum.

Úrslitin þykja þau verstu í sögu Real Madrid og eins og gefur að skila er mikill titringur í herbúðum liðsins enda hefur það aðeins náð að vinna einn af síðustu fimm leikjum sínum.

Spænskir fjölmiðlar segja að Pellegrini, sem tók við þjálfun Real Madrid í sumar, sé orðinn mjög valtur í sessi og nái liðið ekki að vinna tvo næstu leiki sína sem er gegn Getefe og AC Milan telja þeir að dagar Pellegrini verði taldir.

,,Athlægi aldarinnar" er fyrirsögnin í spænska blaðinu AS og í Marca segir að Pellegrini geti ekki haldið áfram 10 sekúndur lengur.

Bað stuðningsmennina afsökunar


Jorge Valdano stjórnarformaður Real Madrid sendi í dag út afsökunarbeiðni til stuðningsmanna félagsins. „Ég veit hvernig stuðningsmönnum Real Madrid og ég bið þá afsökunar. Við verðum að draga lærdóm af þessari niðurlægingu og sýna styrk okkar. Ég er sannfærður um að okkar frábæru atvinnumenn viti hvernig þeir eigi að bregðast við svona mótlæti,“ sagði Valdano við spænska blaðið Marca.

„Ég skammast mín að sjálfsögðu fyrir þessi úrslit. Ég á erfitt með að útskýra þessa uppgjöf hjá mínum mönnum. En við verðum að horfa fram á veginn og hver og einn einasti verður að taka ábyrgð því við verðum að taka okkur saman í andlitinu fyrir næsta leik. Ég er ekkert að hugsa um starf mitt eða uppsögn. Ég er bara að hugsa um næsta leik en ég vona að stuðningsmenn okkar fyrirgefi okkur,“ sagði Pellegrini.

Real Madrid eyddi hvorki meira né minna en jafnvirði 47 milljörðum íslenskra króna í leikmannakaup í sumar og félagið réð Chilebúann Manuel Pellegrini í þjálfarastarfið en hann kom til liðsins frá Villareal.

Real Madrid er í öðru sæti í spænsku 1. deildinni, þremur stigum á eftir erkifjendum sínum í Barcelona þegar átta umferðum er lokið.

Rafael van der Vaart leikmaður Real Madrid var ekki sáttur …
Rafael van der Vaart leikmaður Real Madrid var ekki sáttur í leikslok. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert