Ólína sá rautt en Örebro náði jafntefli

Ólína G. Viðarsdóttir er fastamaður í íslenska landsliðinu.
Ólína G. Viðarsdóttir er fastamaður í íslenska landsliðinu. mbl.is/Golli

Ólína G. Viðarsdóttir fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt eftir aðeins hálftíma leik þegar lið hennar Örebro sótti Malmö heim í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Tíu leikmenn Örebro náðu engu að síður að krækja í stig með 1:1 jafntefli.

Edda Garðarsdóttir lék allan leikinn á miðjunni hjá Örebro en Dóra Stefánsdóttir var ekki með Malmö því hún er að jafna sig eftir aðgerð.

Jafnteflið þýðir að Örebro er áfram í 5. sæti deildarinnar en Guðbjörg Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Djurgården eru stigi á eftir með 1:0 sigri á Kopparbergs/Gautaborg í dag, nú þegar aðeins ein umferð er eftir. Guðrún Sóley Gunnarsdóttir gat ekki leikið með Djurgården vegna meiðsla.

Sigur Djurgården færði Linköping meistaratitilinn en liðið er fjórum stigum á undan Umeå og Kopparbergs/Gautaborg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert