Ágóðaleikur fyrir Sigurð Hallvarðsson

Sigurður Hallvarðsson í búningi Þróttar.
Sigurður Hallvarðsson í búningi Þróttar.

Knattspyrnulið Þróttar í Reykjavík mætir á sunnudaginn Stjörnuliði Willums Þórs í ágóðaleik á gervigrasinu í Laugardal. Leikurinn er settur upp til stuðnings Sigurði Hallvarðssyni, fyrrum leikmanni Þróttar, og fjölskyldu hans en Sigurður er nú í endurhæfingu eftir að hafa gengist í þriðja sinn undir uppskurð vegna æxli við heila.

Sigurður, sem er 46 ára gamall, var mikill markaskorari á árum áður og er áttundi markahæsti leikmaðurinn í deildakeppninni hér á landi frá upphafi. Hann gerði 145 mörk á Íslandsmóti meistaraflokks, bróðurpartinn fyrir Þrótt en hann lék einnig með Haukum, Fjölni og Hugin á Seyðisfirði.

Í fréttatilkynningu frá Þrótturum segir að vegna veikindanna hafi Sigurður lítið getað stundað vinnu á árinu og geti það ekki fyrr en endurhæfinu sé lokið. Hann sé á batavegi eftir að hafa lamast vinstra megin eftir þriðja uppskurðinn nú í haust. Sigurður og eiginkona hans eiga samtals níu börn og hafa því fyrir stóru heimili að sjá.

Leikurinn á sunnudag hefst klukkan 13 og er aðgangseyrir að eigin vali. Stofnaður hefur verið reikningur fyrir þá sem komast ekki á leikinn en vilja styðja við bakið á honum. Reikningsnúmerið er 324-13-720, kt. 020163-2409, og er virkt frá og með morgundeginum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert