Stuðningsmenn íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu á EM í Finnlandi í haust hafa verið tilnefndir til verðlauna sem bestu stuðningsmenn fótboltaliðs í Evrópu á árinu 2009.
Íslenski hópurinn, sem var afar áberandi á leikjum íslenska liðsins í Finnlandi, er einn af þrettán stuðningshópum sem hafa verið valdir úr hjá samtökunum FARE, "Football Against Racism in Europe", eða "Knattspyrna gegn kynþáttafordómum í Evrópu".
Samtökin standa fyrir útnefningu á bestu stuðningsmönnum Evrópu og vilja með því leggja áherslu á góða framkomu og jákvæðan stuðning. Þau eru í samvinnu við UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, og markmiðið er að beina viðhorfi og andrúmslofti á fótboltaleikjum inná jákvæðar brautir.
Í dag var tilkynnt að íslenski stuðningshópurinn væri meðal þeirra sem valdir hefðu verið úr þeim sem tilnefndir voru að þessu sinni. Tilkynnt verður um sigurvegara þann 12. desember.
Ljóst er að ekkert landslið á EM í Finnlandi, nema kannski lið heimamanna, fékk stuðning á borð við þann sem það íslenska naut frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu í keppninni.