Thierry Henry, fyrirliði franska landsliðsins í knattspyrnu, viðurkenndi eftir jafnteflið við Íra í kvöld, 1:1, að hann hefði viljandi beitt höndinni til að leggja boltann fyrir sig áður en hann lagði upp jöfnunarmarkið fyrir William Gallas. Það tryggði Frökkum sæti á HM í Suður-Afríku en Írar sitja eftir með sárt ennið.
„Ég skal vera hreinskilinn, ég lagði boltann fyrir mig með hendinni. En ég dæmdi ekki leikinn. Ég notaði höndina, dómarinn dæmdi ekkert. Þið verðið að spyrja hann um ástæðu þess. Það hefði verið betra að útkljá málin á annan hátt, en eins og ég sagði, þá dæmdi ég ekki leikinn," sagði Henry.
Hann viðurkenndi jafnframt að Írar hefðu átt jafnmikið skilið og Frakkar að komast á HM. „Ef þeir hefðu komist áfram, hefði það ekki verið neitt rán. Við berum mikla virðingu fyrir Írum og vissum að þeir vilja beita löngum sendingum og spila fast. Við sáum í kvöld hversu góðir þeir eru. Ég lék í átta ár í Englandi og get staðfest það," sagði Henry.