Úrúgvæar, fyrstu heimsmeistarar sögunnar í knattspyrnunni, urðu í kvöld 32. og síðasta þjóðin til að tryggja sér sæti í úrslitakeppni HM í Suður-Afríku með því að gera jafntefli, 1:1, við Kostaríka í seinni umspilsleik þjóðanna á heimavelli sínum í Montevídeó í kvöld.
Úrúgvæ vann fyrri leikinn í Kostaríka, 1:0, og sigraði því 2:1 samanlagt.
Staðan var 0:0 þar til 20 mínútur voru til leiksloka. Þá skoraði Sebastian Abreu með hörkuskalla fyrir Úrúgvæa, sem þar með voru komnir í 2:0 samanlagt og með pálmann í höndunum.
En aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Walter Centeno fyrir Kostaríka, sem þar með þurfti eitt mark til að komast á HM. Það kom ekki, Úrúgvæar héldu fengnum hlut, eftir hvorki meira né minna en 8 mínútur í uppbótartíma, og þar með verða fimm þjóðir frá Suður-Ameríku í lokakeppninni næsta sumar.