Á formannafundi Knattspyrnusambands Íslands sem fram fór 21. nóvember sl. kom m.a. fram að enginn leikur úr efstu deild kvenna í fótbolta, Pepsi-deildinni, var sýndur í beinni sjónvarpsútsendingu. Guðrún Inga Sívertsen, formaður framkvæmdanefndar um jafnréttisáætlun KSÍ, sagði í gær að nefndin hefði sent erindi til RÚV og bent á þetta misræmi.
Aðeins bikarúrslitaleikurinn í VISA-bikarnum var sýndur beint á RÚV í kvennaflokki. Þar hafði Valur betur, 5:1, í úrslitaleik gegn liði Breiðabliks úr Kópavogi.
RÚV var með þrjár beinar útsendingar í VISA-bikarkeppni karla. Þar sigraði lið Breiðabliks eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni gegn liði Fram.
Stöð 2 sport sýndi 32 leiki í beinni útsendingu í Pepsi-deild karla en Stöð 2 sport er með sýningaréttinn frá þeirri deild. Enginn leikur á Íslandsmóti kvenna, Pepsi-deildinni, var hinsvegar sýndur í beinni útsendingu í sjónvarpi.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.