Eiður Smári Guðjohnsen og Þóra B. Helgadóttir eru knattspyrnufólk ársins 2009 hjá KSÍ en niðurstaðan í leikmannavali sambandsins var kunngerð í dag.
Það eru fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja knattspyrnufólk ársins. Veitt eru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin hjá körlum og konum.
Eiður Smári varð fyrstur Íslendinga til að vera í sigurliði í Meistaradeild Evrópu en Barcelona varð Evrópumeistari. Eiður tók einnig þátt í sigrum liðsins í spænsku 1. deildinni og bikarnum. Hann skoraði tvö mörk í sex landsleikjum á árinu.
Þóra var kjörin besti leikmaðurinn í norsku úrvalsdeildinni, en þar átti hún mjög gott tímabil með Kolbotn sem hafnaði í þriðja sæti. Þá var Þóra í lykilhlutverki með íslenska landsliðinu sem lék í úrslitakeppni Evrópumóts landsliða í Finnlandi.
Kristján Örn Sigurðsson varð í öðru sæti hjá körlunum og Aron Einar Gunnarsson í þriðja sæti. Hjá konunum var Katrín Jónsdóttir í öðru sæti og Hólmfríður Magnúsdóttir í þriðja sæti.