Argentínumaðurinn Lionel Messi var í kvöld útnefndur besti knattspyrnumaður heims á árinu 2009 af FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu, á stórhátíð þess sem nú stendur yfir í Zürich í Sviss.
Messi átti frábært tímabil með Barcelona og vann með liðinu alla þá sex titla sem liðið gat unnið á árinu. Hann skoraði 38 mörk fyrir Barcelona á tímabilinu 2008-2009, þar af 23 í spænsku 1. deildinni. Þá varð hann markakóngur Meistaradeildar Evrópu með 9 mörk.