Valsmenn fengu góðan liðsstyrk á síðasta degi ársins þegar Haukur Páll Sigurðsson skrifaði undir tveggja ára samning við Hlíðarendaliðið nú á ellefta tímanum. Haukur Páll kemur til Valsmanna frá Þrótti en hann varð markahæsti leikmaður liðsins í Pepsi-deildinni í sumar og skoraði 6 mörk í 15 leikjum með liðinu.
Haukur Páll er 22 ára gamall miðjumaður sem mörg lið úr úrvalsdeildinni hafa haft augastað á en Valsmenn höfðu betur í kapphlaupinu um að fá hann í sínar raðir.
Hann lék sem lánsmaður með norska 1. deildarliðinu Alta í september og október og þá var hann til reynslu hjá enska 1. deildarliðinu Watford í síðasta mánuði. Hann hefur leikið einn leik með U21 árs landsliðinu og fimm leiki á hann að baki með U19 ára liðinu.
Áður hafa Valsmenn fengið Jón Vilhelm Ákason frá ÍA, Stefán Eggertsson og Rúnar Már Sigurjónsson frá HK og þá kemur Hafþór Ægir Vilhjálmsson til baka en hann var í láni hjá Þrótti seinni hluta síðustu leiktíðar.
Valsmenn hafa séð á eftir Arnari Gunnlaugssyni og Guðmundi Mete í Hauka, Baldur Bett fór til Fylkis, Helgi Sigurðsson í Víking og Pétur Georg Markan fór aftur til Fjölnis.
Nýr þjálfari er sem kunnugt er í brúnni hjá Valsmönnum. Það er Gunnlaugur Jónsson fyrrum þjálfari Selfyssinga en hans aðstoðarmaður verður James Bett.